Þjónustan

Bílahjálp sími 800 9000 við erum alltaf við símann allan sólarhringinn allan ársins hring.

Ýmislegt getur komið upp á sem veldur því að ökuferðin endar snögglega, eða hreinlega að ekki er hægt að komast af stað. Vandamálin eru af ýmsum toga, en sum algengari en önnur, t.d. eldsneytisleysi, rafmagnsleysi eða sprungið dekk.

Við hjá Krók – bílahjálp reynum að greina vandamálið og leysa það í gegnum símann, t.d. með því að benda á einhverja í nágrenninu sem geta aðstoðað. Annars eru sérhæfðir þjónustuaðilar sendir á staðinn sem reyna að leysa málið á staðnum eða ökutækið hreinlega flutt á viðgerðarstað að ósk viðskiptavinar.

Þjónustan er í boði allan sólarhringinn, alla daga ársins. Ökutæki eru þjónustuð á og við opinbera vegi á Íslandi sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og eru opnir (og færir), þ.e. stofnvegi, tengivegi, sveitarfélagsvegi, héraðsvegi, landsvegi, stofnvegi um hálendi og einkavegi, sbr. vegalög nr 80/2007.

Símaaðstoð

Byrjað er á því að reyna að leysa málið í símtalinu. Lausnin getur þá falist í því að benda á þjónustuaðila í nágrenninu eða aðstoða við lagfæringar eða útskýringu á því sem hugsanlega kann að vera að.

Ef það er ekki fullnægjandi bjóðum aðstoð á staðinn eða flutning ökutækis ef þörf er á.

Björgun

Krókur hefur yfir að ráða öllum stærðum og gerðum af flutningstækjum til að flytja ökutæki. Ef þörf er á flutningi er boðið upp á þá þjónustu og flutt þangað sem viðskiptavinur óskar.

Aðstoð

Ef greining á vandamálinu er þess eðlis að hægt sé að lagfæra ökutækið á staðnum er sérhæfður þjónustuaðili sendur á staðinn. Oft er um þjónustubifreið að ræða en einnig er stundum sendur bílaflutningabíll á staðinn til að hafa möguleika á að flytja ökutækið ef viðgerð á staðnum tekst ekki.

Vandamálin geta verið mismunandi. Algeng vandamál sem allir þjónustuaðilar geta leyst úr á staðnum eru margvísleg, t.d. þessi:

Geymir dauður: Þótt geymir hafi tæmst er yfirleitt hægt að gefa start. Ekki má drepa á ökutækinu fyrr en kannski klukkutíma síðar, eða þar sem hægt er að fá start eða viðgerð (nýjan geymi).

Sprungið dekk eða loftleysi (varadekk til staðar): Aðstoðað við að skipta um dekk eða setja loft í dekkið (ef það er þekkt að loft lekur úr dekkinu).

Eldsneytisleysi: Komið er með eldsneyti í brúsa og fyllt á. Ökutæki gangsett og tryggt að það komist a.m.k. að næstu bensínstöð.

Hurðir/læsingar frosnar: Við ákveðnar aðstæður er ekki hægt að koma lykli í skrá eða hurðir geta límst aftur. Hjálpað við að opna.

Þaklúga lokast ekki: Lúgunni lokað handvirkt eða gati lokað og þétt til bráðabirgða.

Brotin hliðar- eða afturrúða: Hjálpa við að loka og þétta til bráðabirgða.

Önnur vandamál, sem sjaldnar koma upp, eru á færi ákveðinna þjónustuaðila að lagfæra, annars er boðið upp á flutning á næsta verkstæði. Þau eru t.d. þessi:

Bíll læstur: Ef lyklar eru læstir inn í bíl eða þeir hafa týnst er hjálpað við að opna.

Rúðuþurrkum stolið/brotnar: Aðstoðin felst í að útvega nýjar og skipta um.

Öryggi sprungið: Öryggi sem hefur áhrif á akstur, t.d. virka ekki ljós eða einhver öryggisbúnaður. Nýtt öryggi er útvegað og aðstoðað við að skipta um.

Hjólum stolið eða varadekk ekki til staðar: Útvega ný dekk og felgur.

Fleiri vandamál geta komið upp og þá er bara að hringja og afla upplýsinga um hvað hægt er að gera.