Tjónabifreið skilgreining
Hvað þýðir ef bíll er skráður „Tjónabifreið“ ?
Skilgreining á tjónabifreið er:
„Bifreið sem orðið hefur fyrir tjóni, þar sem tjónið getur haft áhrif á aksturseiginleika og akstursöryggi skv. 2. gr reglugerðar um gerð og búnað ökutækja“
Skráning á tjónabifreið:
Umferðarstofa annast skráningu á tjónabifreiðum. Ef tjón er tilkynnt af lögreglu eða tollstjóra er athugasemdin „Tjónabifreið I“ skráð á viðkomandi ökutæki.
Ef tjón er skráð á grundvelli erlendra skráningargagna eða tilkynningar frá tryggingafélagi er athugasemdin „Tjónabifreið II“ skráð á viðkomandi ökutæki.
Breyting á tjónaskráningu:
A)Viðurkennt réttingaverkstæði: Ef vottorð berst frá viðurkenndu réttingaverkstæði (US.358) um viðgerð á tjónabifreið skal fella niður tjónaskráninguna. Athugasemd um tjónabifreið er gerð ógild en skráningin sést áfram í skráningarferli.
B) Skoðunarstofa: Ef staðfestingu á skoðun tjónabifreiðar frá faggiltri skoðunarstofu er framvísað og vottorðum um hjólastöðu- og burðarvirkismælingu (US.355) skal breyta tjónaskráningu í „viðgerð tjónabifreið“. Athugasemd um tjónabifreið er gerð ógild og skráð er athugasemdin „Viðgerð tjónabifreið“. (Skoðunarstofa áframsendir burðarvirkisvottorð og hjólastöðuvottorð til Umferðarstofu.)
Vottorð um viðgerð:
Ganga skal úr skugga um að vottorð um viðgerð hafi verið gefin út og undirrituð af réttum aðila. Upplýsingar um aðila sem hafa leyfi til að undirrita vottorðin er að finna á lista yfir viðurkennd réttingaverkstæði (US.358) og lista yfir hjólastöðu- og burðarvirkisvottorð (US.355).